Fyrsta skóflustunga að útialtari að Esjubergi á Kjalarnesi
- Details
- Created: Thursday, 05 May 2016 21:45
Sunnudaginn 8. maí kl. 14.00 verður helgistund á Esjubergi á Kjalarnesi. Tilefnið er að tekin verður fyrsta skóflustunga að útialtari þar á staðnum. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, tekur skóflustungu ásamt sr. Þórhildi Ólafs, prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, fulltrúa sögufélagsins Steina á Kjalarnesi, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016. Helgistundinni stýrir sr. Gunnþór Þ. Ingason, prestur helgihalds og þjóðmenningar. Í lok stundarinnar verður boðið upp á kaffi og kleinur.
Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í þessu máli eftir að það var tekið upp með formlegum hætti á kirkjuþingi 2015 og vakin athygli á því. Á áttunda tug síðustu aldar var hvatt til þess á kirkjuþingi að rannsókn færi fram á kirkjugarðinum á Esjubergi til þess að grafast fyrir um dvöl papa á Íslandi fyrir norrænt landnám.
Útialtariðverður vænt grettistak og sótt í Esjubergsnámurnar og flutt áflöt eina austan við bæinn Esjuberg. Síðan verður hlaðið með grjóti og torfi í kring. Upp úr altarinu mun rísa veglegur keltneskur kross. Teikning af útialtarinu er hönnuð af Sigurborgu Haraldsdóttur, landslagsarkitekt, eftir hugmynd sr. Gunnþórs Þ. Ingasonar, prests helgihalds og þjóðmenningar, sem unnin var í nánu samráði við sögufélagið Steina.
Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð og næsta líklegt að skriðuföll hafi spillt vegsummerkum eftir hana. Sagnir eru um skriðuföll í Esju sem breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnd kirkjurúst.
Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.
Sagnir herma að kirkja hafi staðið á Esjubergi á Kjalarnesi fyrir kristnitöku, um árið 900. Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok plenárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. Örlygur reisti kirkju á Esjubergi á Kjalarnesi.
Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 13. öld. „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.“
Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.“
Þrátt fyrir að áþreifanleg ummerki um kirkju Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.
Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjubergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Esjuberg er í næsta nágrenni við einn fjölmennasta útvistarstað Reykvíkinga, Esjuna. Útialtarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eins og brúðkaup og skírnir.
Sögufélagið Steini hefur og í bígerð að koma upp söguskilti við Esjuberg svipuð þeim sem það hefur sett upp á nokkrum stöðum á Kjalarnesi í samvinnu við Reykjarvíkurborg.
Allir eru velkomnir að taka þátt í athöfninni.